Hollenski bankinn ABN Amro, sem er einn af 15 stærstu bönkum heims, tilkynnti í gær að góð afkoma í starfsemi hans í Brasilíu og á heildsölubankasviði hefði orðið til þess að hagnaður á fjórða ársfjórðungi hefði aukist um 3% frá fyrra ári.

Nam hann 1,3 milljörðum evra, 98 milljörðum íslenskra króna, borið saman við 1,26 milljarða evra, eða sem nam tæpum 95 milljörðum króna. Þetta er vel yfir áætlunum sjö sérfræðinga sem Dow Jones Newswires fékk til að spá, en meðalspá þeirra hljóðaði upp á 938 milljónir evra, eða 70 milljarða króna.

Hagnaður á hlut á fjórða fjórðungi lækkaði hins vegar úr 0,75 evrum niður í 0,7 evrur, þar sem hlutafé var aukið.

Æðsti yfirmaður bankans, Rijkman Greonink, segir að á þessu ári muni bankinn einblína á að "bæta frammistöðu okkar í umsjónar- og eftirlitsverkefnum." Í miðjum síðasta mánuði sektuðu bandarísk yfirvöld ABN um 66,5 milljónir evra, fyrir að brjóta bandarísk lög um peningaþvætti og gegn viðskiptabanni gegn Íran og Líbýu. Húsnæðislánadeild ABN komst einnig að samkomulagi við bandarísk yfirvöld og greiddu 16,86 milljónir dollara í sekt fyrir að falsa skjöl tengd húsnæðislánum.

Rétt að taka fulla ábyrgð

"Rétta leiðin fram á við er að taka fulla ábyrgð, leiðrétta það sem aflaga hefur farið og taka upp menningu innan fyrirtækisins sem gengur út á að fara að fullu að öllum reglum og eiga gott samstarf við eftirlitsaðila," sagði Greonink í yfirlýsingunni.

Þá mun bankinn einnig einblína á "aga í kostnaðaraðhaldi og umsýslu fjármagns," bætti hann við.

"Afkoman fór langt fram úr væntingum greiningaraðila," segir Jacob Bosscha hjá SNS Securities í samtali við Dow Jones Newswires. Hann mælir með því að fjárfestar kaupi hlutabréf í ABN og telur að verð þeirra muni ná 23,5 evrum á hlut. Í gærmorgun var gengi þeirra 22,88 evrur.

Hagnaður jókst um 13,4% á árinu

Hagnaður á árinu 2005 hækkaði um 13,4% frá fyrra ári og nam 4,38 milljörðum evra, eða 329 milljörðum íslenskra króna, borið saman við 3,87 milljarða evra, eða 290 milljarða króna. Gengishagnaður upp á 474 milljónir evra stuðlaði að auknum hagnaði á árinu, sagði bankinn í yfirlýsingunni. Bankinn hyggst greiða 1,1 evru í arð á hlut, borið saman við eina evru árið 2004.

Bankinn hyggst einnig kaupa 600 milljónir evra af eigin hlutafé á fyrri helmingi ársins, en ætlunin var að gera það á síðasta ári. Þeim fyrirætlunum var frestað þar sem bankinn keypti ítalska bankann Banca Antonveneta SpA á árinu. ABN sagðist ráðgera að selja starfsemi sem utan grundvallarstarfsemi bankans, eins og Bouwfonds í Hollandi, og að slíkar ráðstafanir gætu skapað "færi á að kaupa fleiri eigin bréf á seinni hluta ársins 2006."

ABN Amro bankinn er fyrirferðamikill í smásölu- og heildsölubankastarfsemi í heiminum og einnig í eignastýringu. Auk þess að hafa sterk ítök í Hollandi hefur hann sterka stöðu í Brasilíu og miðvesturríkjum Bandaríkjanna, þar sem hann á LaSalle bankann. Hann hefur haslað sér völl á Ítalíu með kaupum á fyrrnefndum Antonveneta, eftir harðvítuga baráttu um þann banka við aðra fjárfesta.