Hagnaður Exista hf. nam 37,4 milljörðum króna á síðasta ári samanborið við 50 milljarða króna hagnað árið á undan. Hagnaður fjórða ársfjórðungs nam 13,1 milljarði króna en var 28,9 milljarðar á fjórða ársfjórðungi 2005. Ársreikningur Exista fyrir síðasta ár er fyrsti ársreikningur félagsins sem birtist eftir að félagið var skráð í OMX Kauphöllina á Íslandi í september á síðasta ári. Félagið hefur tekið talsverðum breytingum á árinu en hinn fyrsta júní síðastliðinn bættust tryggingaféflagið VÍS og eignaleigufyrirtækið Lýsing inn í reikninga samstæðunnar. Við þessar breytingar breyttist Exista úr fjárfestingafyrirtæki í fjármálaþjónustufyrirtæki sem gerir allan samanburð milli ára og ársfjórðunga skakkan.

Heildartekjur samstæðunnar námu 61 milljarði króna á árinu samanborið við 50,7 milljarða árið áður. Heildartekjur fjórða ársfjórðungs voru 21,1 milljarður króna.
Rekstrarhagnaður síðasta árs var 51,4 milljarðar króna og hagnaður samstæðunnar fyrir fjármagnsgjöld nam 17,6 milljörðum króna.

Fjáreignir á gangvirði skiluðu 31,3 milljarða króna gengishagnaði á síðasta ári samanborið við 48,9 milljarða króna gengishagnað árið áður.Gengishagnaður ársins af veltufjáreignum nam 11,3 milljörðum króna samanborið við 960 árið áður. Arðstekjur námu 6,9 milljörðum en voru 687 árið áður. Þessi mikla aukning í arðstekjum á milli ára á rætur sínar að rekja til arðgreiðslu Kaupþings í október síðastliðnum. Vaxtatekjur vegna eignaleigustarfsemi námu 4,4 milljörðum króna en eignaleigufyrirtækið Lýsing kom inn í reikninga samstæðunnar um mitt síðasta ár.Iðgjaldatekjur sem komu inn á sama tímapunkti námu 6,4 milljörðum.

Heildarútgjöld samstæðunnar á síðasta ári voru 9,6 milljarðar króna. Heildareignir Exista voru í lok tímabilsins 416 milljarðar króna sem er aukning um 254 milljarða frá upphafi ársins.Eigið fé er 179 milljarðar króna sem er aukning um 87% á árinu og eiginfjárhlutfall var 43,2% í árslok síðasta árs.

Lýður Guðmundsson sagði um uppgjörið:
Við erum sátt við árangur ársins 2006. Rekstur félagsins var traustur og mikilvæg skref voru stigin í útvíkkun á starfseminni og útvíkkun hlutahafahópsins. Á þessu ári hyggjumst við byggja enn frekar á þeim grunni sem lagður hefur verið og auka dreifingu í tekjum enn frekar.