Hagnaður Fasteignafélagsins Stoða hf. á síðasta ári nemur 11.395 milljónum króna en nam 2.085 milljónum króna fyrir sama tímabil árið áður samkvæmt tilkynningu félagsins til Kauphallarinnar. Fasteignafélagið Stoðir hf. er fasteignafélag sem sérhæfir sig í rekstri og útleigu atvinnuhúsnæðis.Rekstrartekjur ársins 2006 námu 6.191 milljónum króna en námu 3.468 milljónum króna  fyrir sama tímabil árið. Heildareignir samstæðunnar í árslok námu 156.634 milljónum króna en námu 72.538 milljónum króna í árslok 2005.  Eigið fé félagsins í lok árs nam 22.717 milljónum en þar af nam hlutafé 2.200 milljónum Eigið fé í árslok 2005 nam 10.832 milljónum og eiginfjárhlutfall var 14,5%.

Í árslok 2005 gerði Fasteignafélagið  Stoðir hf. samning um kaup á öllu hlutafé í danska fasteignafélaginu Atlas Ejendomme A/S og er rekstur þess hluti af samstæðureikningi síðasta árs.  Í maí 2006 keypti félagið allt hlutafé í Löngustétt ehf. og er rekstur þess hluti af samstæðureikningi félagsins frá 1. maí 2006. Helstu fasteignir þess eru Dalshraun 1, Laugavegur 182, Austurstræti 8 og Póshússtræti 3 og 5. Þá seldi félagið á síðasta ári eignarhluti sína í Högum ehf. og DBH Holding ehf til Baugs. Í desember 2006 keypti félagið í gegnum dótturfélag sitt Atlas Ejendomme II A/S verslunarhúsnæði ILLUM á Strikinu í Kaupmannahöfn og verslunarhúsnæði Magasin du Nord í Lyngby, Óðinsvé og Árósum.