Hagnaður Finnair, sem FL Group á ríflega 22% hlut í og Straumur-Burðarás um 5%, næstum fjórfaldaðist á þriðja ársfjórðungi, vegna aukinna tekna af vaxandi eftirspurn í farþegaflugi í Asíu og hagræðingar í rekstri. Samtals nam hagnaður finnska flugfélagsins, sem er að 56% í eigu stjórnvalda, 39,6 milljónum evra, borið saman við 10,3 milljónir evra á sama tíma fyrir ári. Sölutekjur flugfélagsins jukust einnig um 5,8% og námu samtals 542,2 milljónum evra, að því er fram kemur í tilkynningu frá Finnair.

Forstjóri Finnair, Jukka Hienonen, sagðist "mjög ánægður" með afkomu félagsins á fjórðungnum. "Við erum í þeirri stöðu að geta átt von á besta ársuppgjöri félagsins frá því árið 2000", hefur AP-fréttastofan eftir Hienonen. Hann segir jafnframt að þrátt fyrir miklar verðhækkanir á eldsneyti, þá hafi orðið fjölgun í farþegaflugi í öllum heimsálfum sem Finnair flýgur til, en ekki síst hefur eftirspurnin aukist í Asíu og Suður-Ameríku.

Eftirspurn í farþegaflugi hjá Finnair í Asíu jókst um 30% á fyrstu níu mánuðum ársrins - þrisvar sinnum meiri aukning en að meðaltali hjá öðrum evrópskum flugfélögum. Þessi mikla aukning skýrist einkum af því að Finnair er eitt fárra flugfélaga sem hefur beina yfirflugsheimild yfir Rússland. Sú heimild gefur flugfélaginu ákveðið forskot á önnur evrópsk félög, þar sem flugtími ört vaxandi hóps ferðamanna frá Asíu til Evrópu, styttist til muna.

Finnair segir að aukinn eldsneytiskostnaður vegna hækkandi heimsmarkaðsverðs á olíu sé einn helsti óvissuþátturinn í rekstri félagins á komandi misserum. Hins vegar eigi félagið ekki von á því að slíkt muni hafa "veruleg áhrif" á þessu ári.

Gengi hlutabréfa í Finnair hækkaði mest um 4,7% í kjölfar afkomutilkynningar félagsins, en lækkaði í viðskiptum þegar líða tók á daginn.

[email protected]