Hagnaður samstæðu Jarðborana fyrstu þrjá mánuði ársins 2005 var 136 milljónir króna samanborið við 80 milljónir á sama tíma árið áður.
Rekstrartekjur félagsins námu 1.006 milljón króna, en voru 708 milljónir árið 2004. Veltuaukning er því ríflega 42%. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) nam 225 milljónum króna en var 171 milljónir á sama tíma í fyrra.

Afkoman er í samræmi við þá niðurstöðu sem félagið gerði ráð fyrir þegar gengið var frá rekstrarmarkmiðum ársins.
Heildareignir samstæðunnar voru bókfærðar á liðlega 7,8 milljarða króna og skiptust þannig að fastafjármunir námu 4,6 milljörðum en veltufjármunir voru 3,2 milljarðar króna.

Í lok tímabilsins nam eigið fé félagsins um 2,7 milljörðum króna. Eiginfjárhlutfall var 34,4%. Hlutafé samstæðu Jarðborana er 400 milljónir króna að nafnverði.

Að sögn Bents S. Einarssonar, forstjóra Jarðborana, gekk rekstur samstæðunnar vel á þessum fyrsta fjórðungi ársins 2005. Hann segir vænlega horfa um verkefni félagsins heima og erlendis á næstu misserum, bæði á sviði framkvæmda við boranir og byggingastarfsemi.

Borrekstur Jarðborana á árinu 2005 hefur einkennst af miklum umsvifum við háhitaboranir. Verkefni fyrir Hitaveitu Suðurnesja á Reykjanesi og fyrir Orkuveitu Reykjavíkur á Hellisheiði hafa verið áberandi en fyrirtækin eru komin vel á veg með framkvæmdir vegna byggingar jarðvarmavirkjana, sem m.a. munu framleiða raforku fyrir stækkun Norðuráls. Verkefnastaða borframkvæmda er sterk og stórt borverkefni á Azoreyjum á vegum dótturfélagsins, Iceland Drilling (UK), sem samið var um síðla árs 2004, hófst nú í febrúar. Framkvæmdinni miðar vel og koma 25-30 starfsmenn að verkefninu.

Árið 2005 fer vel af stað í byggingariðnaði og mannvirkjagerð og hefur það eðlilega jákvæð áhrif á rekstur dótturfélags Jarðborana, Björgun. Góður vöxtur var í sölu hráefna til byggingariðnaðar, ágætur stígandi var í landfyllingum og hafin var bygging á öðru fjölbýlishúsinu á vegum fyrirtækisins. Verkefni á Kársnesi og Sjálandi munu setja sterkan svip á rekstur Björgunar næstu þrjú til fjögur árin. Langtímaverkefni á sviði landmótunar og lóðagerðar við sjávarsíðuna skapa félaginu ákjósanlega stöðu á komandi árum.

Fjölbreytni í verkefnum Einingarverksmiðjunnar fer vaxandi og er verkefnastaða verksmiðjunnar góð.