Hagnaður Eignarhaldsfélagsins Verðbréfaþing hf., sem á og rekur Kauphöll Íslands og Verðbréfaskráningu Íslands á fyrri árshelmingi nam 36,7 m.kr. samanborið við 35,1 m.kr. á árinu 2004. Eigið fé 30. júní var 332,5 m.kr. (345,8 m.kr. í árslok 2004) og eiginfjárhlutfall 71,3% (80,8% í árslok 2004). Rekstrartekjur jukust um 10,3% frá sama tímabili í fyrra eða úr 279,7 m.kr. í 308,4 m.kr. Rekstrargjöld námu 274,3 m.kr. samanborið við 243,7 m.kr. árið 2004 og nemur aukningin því 12,6%.

Eignarhaldsfélagið Verðbréfaþing hf. var stofnað árið 2002 um rekstur Kauphallar Íslands hf. og Verðbréfaskráningar Íslands hf. með það fyrir augum að auka hagræði í rekstri félaganna og auka samstarf þeirra. Félögin tvö eru rekin sem sjálfstæðar rekstrareiningar.

Afkoma Kauphallar Íslands hf.

Samtals námu rekstrartekjur Kauphallar Íslands 199,4 m.kr. og rekstrargjöld 179,8 m.kr. Rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði var því 19,6 m.kr. samanborið við 25,4 m.kr. árið 2004. Hagnaður nam 21,7 m.kr. en var 25,5 m.kr. á fyrra árshelmingi 2004. Arðsemi eigin fjár var 19,4% samanborið við 29,2% á sama tímabili árið 2004.

Í rekstraráætlun var reiknað með 7,0 m.kr. hagnaði á fyrra árshelmingi. Rekstrartekjur voru í samræmi við áætlun á fyrra árshelmingi en rekstrargjöld voru 17 m.kr. undir áætlun. Flestir flokkar kostnaðar voru undir áætlun en mestu munar um að ýmis kostnaður við þróunarverkefni, s.s. kostnaður við undirbúning fyrir nýjan markað fyrir hlutabréf og við athugun á markaði fyrir íslenskar afleiður, var lægri en ráð var fyrir gert.

Afkoma Verðbréfaskráningar Íslands hf.

Í heild voru rekstrartekjur Verðbréfaskráningar Íslands tæplega 111 m.kr. og rekstrargjöld 96 m.kr. fyrir tímabilið janúar til júni 2005. Rekstrarhagnaður fyrstu 6 mánuði ársins nam því um 14,5 m.kr. Að teknu tilliti til fjármagnsliða og skatta nam hagnaður tímabilsins 15 m.kr.

Afkoma fyrstu sex mánuði ársins er heldur betri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Bætt afkoma skýrist fyrst og fremst af því að rekstrartekjur voru hærri en gert var ráð fyrir í áætlun. Rekstrarkostnaður er í samræmi við áætlun fyrra hluta ársins.

Horfur

Aðstæður á verðbréfamarkaði hafa verið góðar undanfarið. Umfang viðskipta á fyrra hluta ársins var áþekkt því sem það var á sama tímabili árið 2004 sem var metár. Þrátt fyrir fækkun skráðra félaga hefur markaðsvirði þeirra aukist hröðum skrefum sem má bæði rekja til hlutafjárhækkana og hækkunar hlutabréfaverðs.

Þróun rekstrarumhverfis gefur ástæðu til bjartsýni. Efnahagsleg skilyrði eru hagstæð og rekstur skráðra félaga gengur vel. Hlutabréfaverð hefur haldið áfram að hækka og flest bendir til að viðskipti verði áfram lífleg, einkum á hlutabréfamarkaði. Áhugi á nýskráningum hefur glæðst. Tvö félög voru skráð á markað í júní og vænta má fleiri nýskráninga næstu misseri. Horfur eru því á að afkoma verði áfram góð.