Sænsk-japanski símaframleiðandinn, Sony Ericsson hefur tilkynnt að hagnaður fyrirtækisins á þriðja ársfjórðungi hafi þrefaldast og er þetta fimmti ársfjórðungurinn í röð, en fyrirtækið var stofnað árið 2001, sem hagnaður eykst. Á sama tíma minnkaði hagnaður Nokia, sem er stærsti framleiðandi farsíma.

Markaðshlutdeild Nokia er um 30% af heimsmarkaðinum og vegna harðnandi samkeppni hefur fyrirtækið þurft að lækka verð og það hefur haft bein áhrif á hagnað. Á móti hefur Nokia tekist að halda stöðu sinni á markaðinum, en sérfræðingar vara við að staða fyrirtækisins kunni þrátt fyrir allt að vera í hættu.

Hlutdeild Sony Ericsson er um 7% og talsmenn fyrirtækisins segja að sóknarfærin felist fyrst og fremst í því að leggja áherslu á ímynd, afþreyingu s.s. leiki, og samskiptatæki farsíma meðal annars með því að auðvelda aðgang að tölvupósti og interneti.

Hagnaður Sony Ericsson fyrir skatta á þriðja ársfjórðungi, sem lauk í september, var 136 milljónum evra borið saman við 39 milljóna evra hagnað á sama tíma fyrir ári. Heildarsala nam 1,68 milljörðum evra og hefur meðalverð á selda einingu hækkað samhliða aukinni einingasölu. Aukin sala er rakin til mikillar velgengni síma með myndavélum.

Sony Ericsson er í eigu Sony í Japan og Ericsson í Svíþjóð.