"Hagstjórnin þarf að hysja upp um sig buxurnar ef hér á að komast á ytri og innri stöðugleika í hagkerfinu," sagði Tryggvi Þór Herbertsson í dag þegar hann kynnti síðustu skýrslu sína sem forstöðumaður Hagfræðistofnunnar Háskóla Íslands. Skýrslan fjallar um hagstjórnarumhverfið og var unnin fyrir Samtök Atvinnulífsins, LÍÚ, SI, SF og samtök fjármálafyrirtækja.

Í skýrslunni fær bæði peningamálastjórnin og hagstjórn hins opinbera falleinkunn og þá er mælt með að hér á landi verði krónunni skipt út fyrir Evru ef að hagstjórnin tekst ekki að hysja upp um sig buxurnar sem fyrst.

Í skýrslunni eru raktar orsakir þeirra miklu þenslu og ofhitnunar sem á sér stað í hagkerfinu um þessar mundir sem hefur meðal annars leitt til mikillar styrkingar íslensku krónunnar og hávaxtastefnu Seðlabankans. Að mati Tryggva á ástandið sem ríkir nú, rætur að rekja til breytinga á íbúðalánamarkaði og stóriðjustefnu sem stjórnvöld áttu frumkvæðið að. "Þessar sviptingar höfðu í för með sér sankallaða rússíbanaferð fyrir íslenskt atvinnulíf, bæði hvað varðar gengi og fjármagnskostnað," segir í skýrslunni.

"Sennilegt er að mistök hafi átt sér stað hvað varðar hagstjórn undanfarið. Allt bendir til þess að Seðlabanki Íslands hafi byrjað of seint að hækka vexti og fjármálastjórn hins opinbera hafi verið of losaraleg," segir í skýrslunni.