Greiningardeild Arion banka gerir ráð fyrir 0,8% verðlækkun í janúar og mun tólf mánaða verðbólga fara niður fyrir 2% í janúar. Segir í Markaðspunktum að þrátt fyrir hressilegar útsölur (-0,9% til lækkunar) þá geri greiningardeildin ráð fyrir 0,3-0,45% áhrifum uppá við vegna skatta- og gjaldskrárhækkana hins opinbera.

Áður gerði greiningardeild Arion banka ráð fyrir 0,4% lækkun verðlags. „Það sem við vissum ekki þá var að Hagstofan mun í janúar taka útvarpsgjald (hét afnotagjald) út úr vísitölu neysluverðs með 0,4% áhrifum til lækkunar verðlags (mat Hagstofunnar). Þessi lækkun verður því hrein viðbót við útsöluáhrifin og gerum við því ráð fyrir um 0,8% lækkun VNV í janúar (en ekki 0,4% lækkun eins og fyrri spá okkar gerði ráð fyrir).

Ástæðan fyrir þessari breyttu aðferðarfræði er sú að þegar útvarpsgjaldið var tekið upp árið 2009 þá var það kynnt sem breyting á innheimtuformi og voru tekjurnar áfram eyrnamerktar RÚV. Því var afnotagjaldinu haldið inni í VNV. Í útskýringum Hagstofunnar er bent á að á árunum 2009 og 2010 hafi innheimtar tekjur af gjaldinu runnið nær óskert til RÚV. Hinsvegar hefur þessu fyrirkomulagi verið breytt í fjárlögum 2011 – gjaldið hefur verið hækkað en á hinn bóginn var fjárveiting til RÚV skert milli ára. Því lítur Hagstofan nú á útvarpsgjaldið sem beinan skatt.

Því má segja að gjaldskrárhækkun hins opinbera leiði með beinum hætti til lægri verðbólgu – eins einkennilegt og það hljómar. Því er kannski áhugvert að velta fyrir sér hvort Hagstofan geti galdrað upp fleiri kanínur til að vega upp á móti öðrum skatta- og gjaldskrárhækkanir hins opinbera,“ segir í Markaðspunkti.