Hagfræðingur Samtaka atvinnulífsins segir líklegt að Hagvaxtarspá Hagstofunnar, sem er forsenda fjárlagana, verði lækkuð til samræmis við nýrri spár annarra greiningardeilda. Þetta kemur fram á RÚV: Hagvaxtarspáin verði lækkuð þar sem fjárfesting á næsta ári verði minni en áætlað var.

Spár ýmissa, þar á meðal Alþýðusambands Íslands, Hagstofunnar og Seðlabankans gera um margt ráð fyrir ólíkum hagvexti í ár og næstu ár. Í Peningamálum Seðlabanka Íslands sem birt voru í gær er gert ráð fyrir 3,1% hagvexti á þessu ári en gert ráð fyrir að hann fari síðan lækkandi og verði 2,3% á næsta ári.

Þjóðhagsspá Hagstofunnar, sem fjárlög taka mið af, gerir ráð fyrir töluvert meiri efnahagsbata á næsta ári eða 3,1%hagvexti.

Halldór Árnason, hagfræðingur hjá Samtökum atvinnulífsins segir í samtali við RÚV þennan mun á hagspám vera vegna ólíkra forsenda - sérstaklega er varði fjárfestingar og þróun einkaneyslu. Hann segir líklegt að hagvaxtarspá Hagstofunnar, sem er síðan í vor verði lækkuð nú þegar hún verði endurskoðuð. Það verði gert vegna minni fjárfestinga á næsta ári. „Það er ljóst að ýmsar framkvæmdir sem voru inni í spánni vor verða ekki á næsta ári“ segir Halldór og á þar til dæmis við vegaframkvæmdir. Þá hafi ekki gengið jafn vel og vonir stóðu til við að greiða úr skuldamálum fyrirtækja. „Það þarf alltaf tíma frá því að sú niðurstaða er fengin, þar til að fyrirtækin taka sínar ákvarðanir um framtíðarfjárfestingu“