Hákon Stefánsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Lánstrausts hf., dótturfyrirtæki Creditinfo Group á Íslandi, CIG. Meginstarfssemi Lánstrausts er þjónusta og sala fjárhags- og viðskiptaupplýsinga sem m.a. lámarka áhættu í láns- og reikningsviðskiptum.

Hákon er 33 ára og lauk kandídatsprófi í lögfræði við Háskóla Íslands í febrúar 1998. Hann öðlaðist héraðsdómslögmannsréttindi 1999. Hákon starfaði áður sem sviðsstjóri ráðgjafasviðs hjá Intrum á Íslandi, en þar áður starfaði hann sem bæjarlögmaður Akureyrarbæjar. Þá hefur Hákon m.a. sinnt kennslu við nám í verðbréfaviðskiptum og átt sæti í ýmsum nefndum á vegum hins opinbera - situr nú í samráðsnefnd um Landskrá fasteigna. Hákon er kvæntur Maríu Stefánsdóttir, verkefnastjóra hjá Símanum, og eiga þau þrjú börn.

Ráðning Hákonar er liður í því að Reynir Grétarsson, einn stofnanda Lánstrausts og fyrrverandi framkvæmdarstjóri, beiti sér enn frekar að erlendum umsvifum Creditinfo Group hf. Björk Ólafsdóttir, fjármálastjóri Lánstrausts og aðstoðarframkvæmdarstjóri, mun áfram sinna því starfi auk sérverkefna fyrir CIG og stjórnarsetu í Fjölmiðlavaktinni, sem er annað íslenskt dótturfélag CIG. Erlend umsvif CIG byggja aðallega á þeim þjónustugrunni sem Lánstraust og Fjölmiðlavaktin veitir á Íslandi.

Creditinfo Group hf. er nú með starfsemi í 26 löndum og eru starfsmenn þess um 250 talsins.