Ekkert fékkst upp 480 milljóna króna kröfur í þrotabú félagsins Mind ehf. Mind var hugbúnaðar- og leikfangafyrirtæki og var meðal annars í eigu þeirra Jóhannesar Þórðarsonar og Jóhannesar G. Péturssonar. Mind var stofnað árið 2005 og sérhæfði sig í tæknileikföngum sem áttu að hafa áhrif á þroska og fræðslu barna.

Ásbjörn Jónsson, lögmaður hjá LS legal, segir kröfuhafa fyrst og fremst hafa verið fjárfesta félagsins. Þeir fengu ekkert upp í hálfs milljarðs kröfur í búið.

Seldu hugmyndina

Mind átti dótturfélag í Asíu sem einnig varð gjaldþrota. Mind fór í þrot í maí árið 2009 en hafði nokkrum mánuðum áður selt hugmynd að barnatölvu til félags sem meðal annars var í eigu eiginkonu Jóhannesar G. Péturssonar. Í október árið 2010 greindu fjölmiðlar frá því að kröfuhafar og skiptastjóri hygðust rifta þeirri sölu og kom meðal annars fram að umrædd hugmyndavinna væri ein helsta eign félagsins. Aðspurður segir Ásbjörn það ekki hafa gengið eftir og hafi félagið sem keypti hugverkið eftir hans bestu vitneskju einnig farið í þrot.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.