Fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar, sem lögð var fram í byrjun síðustu viku, hefur verið nokkuð í umræðunni síðustu daga og þá hefur umræða um útsvar og þjónustu verið helst áberandi.

Þrátt fyrir að sveitarfélögum hafi um síðustu áramót verið heimilt að hækka útsvar sitt um 0,25 prósentustig ákvað núverandi meirihluti að halda útsvarinu óbreyttu. Sú ákvörðun hefur verið gagnrýnd af minnihlutanum og síðustu daga hafa borgarfulltrúar VG lagt áherslu á að útsvar borgarinnar yrði hækkað.

„Það kemur ekki til greina. Það hefur aldrei komið til greina af okkar hálfu að sækja þannig aukið fjármagn til íbúa borgarinnar,“ segir Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri í samtali við Viðskiptablaðið aðspurð um tillögu minnihlutans.

„Ég er þeirrar skoðunar að við sem þjóð séum komin mjög langt í því að ætla að leysa vandann í gegnum vasa almennings og ég held að það sé ekki meira rými þar. Ég er líka þeirrar skoðunar að við hér hjá Reykjavíkurborg getum náð fram hagræðingu í rekstrinum og að það sé mikilvægt að við gerum það og leitum allra leiða, hér innan okkar kerfis, áður en við leitum í þá vasa.“

_____________________________

Nánar er rætt við Hönnu Birnu Kristjánsdóttir, borgarstjóra, í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .