Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri, segir rekstrarniðurstöðu Reykjavíkurborgar bera vott um styrka fjármálastjórn Reykjavíkurborgar og stjórnendur hennar verði seint sakaðir um seinagang í viðbrögðum við breyttum aðstæðum.

„Breytt vinnubrögð við fjármálastjórnina skiptu öllu máli,“ segir Hanna Birna í tilkynningu frá borginni.

„Snemma á árinu 2008 komu fram ýmis teikn um breytt ytri skilyrði miðað við forsendur fjárhagsáætlunar og hófu stjórnendur fyrir mitt síðasta ár margvíslegar aðgerðir til að draga úr útgjöldum. Niðurstöður ársreiknings bera þess skýran vitnisburð enda flest sviðin innan fjárhagsramma þrátt fyrir gjörbreyttar verðlags- og gengisforsendur seinni hluta ársins.“

Hún segir mestu muna um þá ákvörðun nýs meirihluta Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks að setja fjármálastjórn borgarinnar í öndvegi og taka upp ný vinnubrögð á vettvangi borgarstjórnar með samvinnu allra borgarfulltrúa og allra flokka.

Þannig hafi borgarráð, þegar í ágúst 2008, skipað þverpólitískan aðgerðahóp um fjármál borgarinnar og þann 7. október 2008 hafi öll borgarstjórn samþykkt samhljóða aðgerðaráætlun vegna aðstæðna í efnahags- og atvinnumálum sem hafði víðtæk áhrif á fjármálastjórnina á árinu 2008 og fjárhagsáætlunarvinnu fyrir árið 2009.

„Reykjavíkurborg var fyrsta sveitarfélagið sem setti sér slíka þverpólitíska aðgerðaráætlun og fylgdu mörg önnur sveitarfélög í kjölfarið,“ segir Hanna Birna.

„Borgarráð samþykkti á árinu auk þess mikilvægar breytingar á reglum um gerð fjárhagsáætlunar, reglum um fjárstýringu, reglum um innkaupakort og reglum um meðferð viðskiptakrafna og afskriftir til að efla fjármálastjórn og eftirlit.“