*

laugardagur, 31. júlí 2021
Innlent 14. nóvember 2013 10:42

Hannes mætti ekki í héraðsdóm

Verjandi Hannesar Smárasonar segir hann ekki hafa getað mætt í héraðsdóm þar sem hann sé búsettur erlendis.

Ritstjórn
Frá þingfestingu í máli embættis sérstaks saksóknara gegn Hannesi í morgun.
Haraldur Guðjónsson

Hannes Smárason, fyrrverandi forstjóri FL Group, mætti ekki við þingfestingu í máli embættis sérstaks saksóknara gegn honum í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Gísli H. Hall, verjandi Hannesar, sagði við þingfestinguna Hannes ekki hafa getað mætt þar sem hann sé búsettur erlendis og bað hann um frest fram í janúar. Hann var veittur til 9. janúar 2014.

Við þingfestinguna spurði dómari Gísla að því hvort hann ætli að krefjast frávísunar í málinu. Gísli sagðist ekki hafa tekið afstöðu til málsins. Geri hann það ætli hann að leggja frávísunarkröfuna fram áður en málið verður tekið fyrir að nýju á næsta ári. Þar verður úrskurðað um frávísunarkröfuna. Gísli óskaði jafnframt eftir því við dómara í málinu að fá að skoða frumgögn málsins. Honum var veitt leyfi til þess og fór hann því með dómara afsíðis til að skoða þau að þingfestingu lokinni.

Mál embættis sérstaks saksóknara á hendur Hannesi snýst um viðskipti tengd sölu FL Group á danska flugfélaginu Sterling til Fons. Hannes er ákærður fyrir fjárdrátt og umboðssvik til vara þegar 46,5 milljónir dala, jafnvirði tæpra þriggja milljarða íslenskra króna, voru millifærðar af reikningi FL Group undir lok apríl árið 2005 inn á annan reikning félagsins sem Hannes hafði látið stofna nokkrum dögum fyrr hjá Kaupþingi í Lúxemborg. Peningarnir voru síðan færðir yfir á reikning Fons eignarhaldsfélagsins, sem var undir stjórn Pálma Haraldssonar. Í ákæru í málinu segir að sérstakur saksóknari telji millifærsluna ekki hafa verið í þágu FL Group og án vitundar lykilstjórnenda. 

Þá kemur einnig fram að fjármunirnir hafi ekki skilað sér aftur á reikning FL Group frá Fons fyrr en rúmum tveimur mánuðum síðar, eftir þrýsting, meðal annars frá þáverandi forstjóra félagsins, Ragnhildi Geirsdóttur. Fyrir þann tíma var millifærslan ekki færð í bókhald félagsins.

Hannes hætti sem forstjóri FL Group síðla árs 2007. Lítið heyrðist af honum þar til nýverið þegar VB.is greindi frá því að hann hafi verið ráðinn forstjóri fyrirtækisins NextCode, systurfélags Íslenskrar erfðagreiningar. Hálfum mánuði síðar steig hann til hliðar sem forstjóri vegna ákærunnar. 

Stikkorð: Hannes Smárason Fons