Hannes Smárason hefur kært Valtý Sigurðsson ríkissaksóknara og Helga Magnús Gunnarsson, saksóknara efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra, fyrir brot gegn þagnarskyldu í opinberu starfi. Hannes vill meina að þeir hafi gerst brotlegir þegar Helgi Magnús afhenti fyrrum hluthafa í FL Group gögn sem aflað hafði verið með húsleit í höfuðstöðvum félagsins. Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag.

Umrædd gögn voru síðar afhent Viðskiptablaðinu og voru grunnurinn að ítarlegum greinaflokki í þremur hlutum um hina svokölluðu Northern Travel Holding (NTH) viðskiptafléttu sem birtist 2-16 september 2009 í Viðskiptablaðinu.

Umdeildustu viðskipti góðærisins

Fléttan snýst um viðskipti FL Group, Fons og Sunds ehf. með eignarhluti í Sterling og öðrum ferðaþjónustufélögum á árunum 2005 til 2008  og eru ein þekktustu sýndarviðskipti útrásartímans á Íslandi. Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis segir meðal annars um viðskiptin að þau séu  „einhver umdeildustu viðskipti Hannesar [innsk. blaðam. Smárasonar], og í raun alls þessa tímabils, þ.e. kaup FL Group á flugfélaginu Sterling af Fons, fjárfestingarfélagi Pálma Haraldssonar, eins helsta samverkamanns Jóns Ásgeirs [Innsk. blaðam. Jóhannessonar].“

Þann 11. nóvember 2008 framkvæmdu starfsmenn skattrannsóknarstjóra ítarlega húsleit í höfuðstöðvum FL Group, sem þá hafði reyndar tekið upp nafnið Stoðir. Þar var lagt hald á ýmiskonar bókhaldsgögn og aragrúi tölvupóstsamskipta afrituð. Hluti þessara gagna voru áframsend til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra fyrir rúmu ári síðan. Um er að ræða hundruð blaðsíðna af trúnaðargögnum. Þar hafa þau legið án þess að málið hafi verið sett í formlegt ákæruferli eða því verið vísað frá. Viðskiptablaðið hefur hluta af umræddum gögnum undir höndum og byggði greinarflokkinn að mestu á upplýsingum sem þau geyma.