Leikfangaframleiðandinn Hasbro á í viðræðum um kaup á kvikmyndafyrirtækinu DreamWorks Animation, sem framleitt hefur teiknimyndir á borð við Shrek og Kung Fu Panda myndirnar. Í frétt New York Times segir að í tilboði Hasbro sé gert ráð fyrir að greitt yrði fyrir kvikmyndaframleiðandann með reiðufé og hlutabréfum.

Jeffrey Katzenberg, forstjóri DreamWorks, er sagður vilja um 30 dali á hlut fyrir fyrirtækið, sem er töluvert yfir gengi bréfanna nú. Við lokun markaða í gær var gengið 22,37 dalir á hlut og markaðsvirði þess 1,9 milljarðar dala. Gengi bréfa Hasbro endaði í 57,47 dölum á hlut og markaðsvirðið því um 7,2 milljarðar dala.

Markmið Hasbro með kaupunum á DreamWorks er, að því er segir í frétt NYT, að finna nýja markaði fyrir leikföng eins og G.I. Joe og My Little Pony. Brian Goldner, forstjóri Hasbro, hefur lengi unnið að því að gera fyrirtækið að almennum afþreyingarrisa og er tilboðið í DreamWorks hluti af því.