Tilgangurinn með því að selja Lyf og heilsu út úr Milestone-samsteypunni, til félags í eigu Karls Wernerssonar hálfu ári fyrir hrun, var að koma fyrirtækinu undan gjaldþroti Milestone. Þetta sagði ögmaður þrotabús Milestone við aðalmeðferð í héraðsdómi Reykjavíkur nú í morgun, en RÚV greinir frá þessu.

Lyf og heilsa var selt út úr Milestone-samsteypunni, sem var í eigu Karls og Steingríms Wernerssona, á vormánuðum 2008 til félagsins Aurláka, sem er í eigu Karls. Hann á fyrirtækið ennþá í gegnum Aurláka.

Milestone varð gjaldþrota árið 2009 og heldur þrotabúið því nú fram að ekki hafi fullnægjandi greiðsla fengist við söluna til Aurláka. Þar hafi vantað upp á 970 milljónir króna. Lögmaðurinn sagði stjórnendur Milestone hafa mátt vita að félagið stefndi í þrot, og ekki væri að sjá en að tilgangurinn með sölunni hefði verið annar en að koma Lyfjum og heilsu undan gjaldþrotinu.

Halldór Brynjar Halldórsson, lögmaður Aurláka og Karls Wernerssonar, sagði hins vegar að þessar fullyrðingar stæðust ekki skoðun. Langstærstur hluti kaupverðsins hefði verið greiddur með yfirtöku skulda og krafa hafi stofnast fyrir afganginum.