Kristrún Frostadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, hefur svarað gagnrýni vegna ummæla hennar um „uppgjöf“ Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra þegar kemur að fjármálum ríkissjóðs. Kristrún ver ummælin og segir að þau hafi ekkert með kyn að gera.

Í nýjasta hlaðvarpsþætti Chess after Dark sagði Kristrún að það sé ekkert sem bendir til þess að Katrín hafi neina skoðun á því hvernig ríkissjóður sé rekinn og sagði fjármálaáætlun ekki endurspegla félagshyggjupólitík forsætisráðherra. „Hún tekur bara punkta frá Bjarna Benediktssyni sem er bara fínt ef þú ert í Sjálfstæðisflokknum en hún hefur enga sjálfstæða skoðun á efnahagsmálum og fjármálum,“ sagði Kristrún.

Sjá einnig: „Hún hefur enga sjálfstæða skoðun“

Líf Magneudóttir, oddviti Vinstri grænna í borginni, gagnrýndi ummælin og sagði að Kristrún ætti að búa yfir meiri reisn en að smætta aðrar konur niður í skoðanir karla. Anna Lísa Björnsdóttir, framkvæmdastjóri þingflokks VG og fyrrum aðstoðarmaður Katrínar, lýsti því yfir á Twitter að það hafi komið sér á óvart að Kristrún hafa fetað þessa leið. „Fyrst Ágúst Ólafur og nú Kristrún.“

Kristrún svaraði Önnu Lísu og sagði gagnrýni sína á Katrínu og fjármál ríkissjóðs ekki hafa neitt með kyn að gera. Fólk innan Vinstri grænna geti einfaldlega skoðað eigin fjármálaáætlun.

„Þó þið setjið grænan og rauðan lit á efnahagsstefnu xD gerir það þetta ekki að félagshyggju. Grunnþjónustan berst í bökkum og þið ráðist í almennar skattalækkanir sem taka tugi milljarða út úr kerfunum okkar.“

Anna Lísa vísaði í ummæli Ágústs Ólafs Ágústssonar, þáverandi þingmanns Samfylkingarinnar, í útvarpsþættinum Sprengisandi haustið 2020. Hann kenndi ríkisstjórnina við Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra þrátt fyrir að Katrín gegndi embætti forsætisráðherra. „Við Willum [Þór Þórsson, núverandi heilbrigðisráðherra sem var annar gestur þáttarins] þekkjum alveg hver stjórnar. Og það er ekki Katrín,“ sagði Ágúst sem baðst síðar afsökunar eftir háværa gagnrýni, þar á meðal frá nokkrum borgarfulltrúum Samfylkingarinnar.