Íbúðalánasjóður hefur selt 2.993 eignir frá fyrsta janúar 2008 til 29. febrúar á þessu ári. Þetta kemur fram í svari félags- og húsnæðismálaráðherra við fyrirspurn frá Oddnýju G. Harðardóttur um ónotað íbúðarhúsnæði í eigu Íbúðalánasjóðs.

Flestar eignir seldi sjóðurinn árið 2014 eða um 1.066 og í fyrra en þá seldi sjóðurinn 898 eignir. Það sem af er þessu ári hefur sjóðurinn selt 87 eignir en hann hefur gengið að tilboðum í 496 eignir til viðbótar.

Íbúðalánasjóður er sjálfstæð stofnun í eigu ríkisins sem veitir einstaklingum, sveitarfélögum, félögum og félagasamtökum húsnæðislán til íbúðarkaupa og byggingarframkvæmda.