Hæstirétttur staðfesti í dag dóm Héraðsdóms Reykjavíkur sem sýknaði Reynir Traustason ritstjóra DV, Jón Trausta Reynisson fyrrverandi ritstjóra DV og núverandi framkvæmdastjóra og Inga Frey Vilhjálmsson fréttastjóra DV í máli sem Heiðar Már Guðjónsson höfðaði gegn þeim. Heiðar fór fram á miskabætur vegna ummæla sem þeir höfðu haft um hann í leiðara blaðsins og í umfjöllun um málefni hans.

Í dómi Hæstaréttar segir meðal annars að fallist er á með héraðsdómi að ummæli á borð við ,Krónuníðingurinn" og ,,Heiðar hljómar eins og landráðamaður." feli í sér gildisdóma, sem ekki verði gerð krafa um að leiddar verði sönnur að. Hæstiréttur tekur undir með héraðsdómi að ummælin séu sett fram af smekkleysi og með þeim djúpt tekið í árinni.

„Þrátt fyrir það og þótt engin þörf hafi verið á svo ósmekklegu orðfæri í umræðunni, verður fallist á að ummælin hafi nægileg tengsl við staðreyndir, sem um er fjallað af hálfu gagnáfrýjenda, til þess að hafna beri kröfu aðaláfrýjanda um ómerkingu þeirra," eins og segir í dómi Hæstaréttar.

Aðilar málsins verða látnir bera kostnað af málarekstrinum sjálfir samkvæmt dómi Hæstaréttar. Dóminn má lesa hér.