*

laugardagur, 31. október 2020
Innlent 17. febrúar 2020 15:58

Heimilin draga saman seglin

Velta greiðslukorta skrapp saman um 0,8% í janúar frá sama mánuði í fyrra. Seglin dregin saman eftir neyslu jóla og áramóta.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Velta innlendra greiðslukorta nam alls tæplega 79 milljörðum króna í janúar sl. og er það nánast óbreytt staða frá sama mánuði árið áður. Velta debetkorta dróst saman um rúmlega 5% á milli ára en aftur á móti jókst velta kreditkorta um 4,5% á sama tíma. Íslandsbanki greinir frá þessu í frétt á vef sínum.

„Ef tekið er tillit til verðlags- og gengisbreytinga skrapp velta greiðslukorta heimila saman um 0,8% í janúarmánuði frá sama mánuði árið 2019. Samdráttur innanlands var 2,0% en hins vegar var vöxtur í veltu utan landsteinanna um 4,8%. Í heildina litið er janúarmánuður þessa árs því nokkuð verri hvað neyslu varðar en janúarmánuður fyrir ári síðan. Sér í lagi á það við um innlendar kortafærslur en íslenskir neytendur straujuðu kortin sín hins vegar í meira mæli á erlendri grundu en fyrir ári síðan,“ segir í frétt bankans.

Þá segir í fréttinni að að í janúar 2019 hafi kortavelta einnig dregist saman að raungildi milli ára. Því megi velta upp hvort sjá megi ákveðið mynstur í neyslu íslenskra heimila í janúar. Þau dragi saman seglin í vaxandi mæli í byrjun árs eftir mikla neyslugleði yfir jól og áramót. „Talsverðar sveiflur geta raunar verið á kortaveltunni á milli einstakra mánaða og er því gagnlegra að skoða ársfjórðungslega þróun. Raunvöxtur kortaveltu á síðasta ársfjórðungi 2019 mældist 2,0% og hafði ekki verið hraðari frá 4. ársfjórðungi 2018. Það verður því áhugavert að skoða kortaveltutölur í febrúar og mars til að vita með vissu hvort sveiflan í janúarmánuði gefur vísbendingu um það sem koma skal á næstunni.“

Stikkorð: Íslandsbanki kortavelta