Heimsmarkaðsverð á olíu náði nýjum hæðum í gær þegar framvirkt olíuverð til afhendingar í maí fór vel yfir 58 dollara. Framvirkt hráolíuverð hefur ekki verið hærra í ríflega 20 ár en olíuverð hefur hækkað um tæp 70% síðastliðið ár. Ástæðu hækkunarinnar í dag má rekja til þess að ekki er búist við að OPEC ríkin geti mætt aukinni eftirspurn með meiri framleiðslu. Þá hefur aukinnar spákaupmennsku gætt á markaðnum í kjölfar þeirrar óvissu sem ríkir um framvindu mála.

Búist er við áframhaldandi hækkun olíuverðs á næstu dögum og telja sérfræðingar jafnvel möguleika vera á því að olíuverð fari í 60 dollara í vikunni. Það kom fram í Viðskiptaþættinum á Útvarpi Sögu í gær (þáttinn má nálgast hér á vefnum) að það sé skoðun margra að hægt sé að tala um olíukreppu þegar olían fari yfir 60 dollara. Nýlega gaf greiningarfyrirtæki í Bandaríkjunum frá sér skýrslu þar sem því er spáð að olíuverð geti farið upp í 100 dollara.

Í Vegvísi greiningardeildar Landsbankans í gær var bent á að áframhaldandi hækkun eldsneytisverðs mun því setja aukinn þrýsting á frekari eldsneytisverðshækkanir íslensku olíufélaganna. Töluverðar líkur eru því á frekari hækkunum á eldsneytisverði á næstunni en þær hækkanir koma ekki til með að hafa áhrif á mælingu Hagstofunnar á vísitölu neysluverðs í apríl enda fór verðkönnun Hagstofunnar fram á föstudag og í dag.

Olíuverðið gaf hins vegar aðeins eftir þegar líða tók á daginn.