Verktakafyrirtækið Helgafellsbyggingar var tekið til gjaldþrotaskipta í héraðsdómi Reykjavíkur 22. febrúar síðastliðinn. Sama dag var skiptastjóri skipaður yfir þrotabúinum. Fyrirtækið gerði árið 2006 samning við bæjarstjórn Mosfellsbæjar um uppbyggingu í einkaframkvæmd á Helgafellslandinu og Leirvogstungu. Fyrirtækið gat ekki staðið við greiðslur til bæjarins vegna lóða sem það gat ekki greitt af. Skuldin nam 246 milljónum króna og skrifaði Mosfellsbær árið 2009 undir sjálfskuldarábyrgð á láni til félagsins.

Innanríkisráðuneytið úrskurðaði í kringum síðustu áramót að gjörningur félagsins og bæjarstjórnar Mosfellsbæjar gangi gegn sveitarstjórnarlögum.

Verktakafyrirtækið stefndi á viðamikla uppbyggingu í Helgafellslandinu en þar áttu að rísa um 1.000 íbúðir. Raunin varð hins vegar allt önnur og eru tiltölulega fá hús á svæðinu.

Skulduðu rúma 12 milljarða

Í lok árs 2011 var 87,5% hlutur í Helgafellsbyggingum skráður á Landsbankann í Lúxemborg en 12,5% hlutur á Hilmar R. Konráðsson. Félagið tapaði 140 milljónum króna árið 2011 og bættist það við 304 milljóna króna tap árið 2010. Eignir félagsins voru bókfærðar á tæpa fimm milljarða króna í lok árs 2011. Þar af var land í byggingu upp á tæpa 4,8 milljarða og fasteignir upp á tæpar 180 milljónir króna. Félagið var á sama tíma með eignir í sölumeðfer upp á þrjá milljarða. Skuldir námu á sama tíma rúmum 12,4 milljörðum króna. Þar af námu skuldir við lánastofnanir rúmum 10 milljörðum króna. Ógreiddir áfallnir vextir lána námu 1,5 milljörðum króna. Það er sama upphæð og við lok árs 2009.

Eigið fé Helgafellsbygginga var um áramótin 2011 neikvætt um tæpa 4,5 milljarða.