Dómsmálaráðuneytið auglýsir í dag laust til umsóknar eitt embætti dómara við Hæstarétt. Stefnt er að því að skipa í embættið frá og með 1. maí eða hið fyrsta eftir að dómnefnd um hæfni umsækjenda hefur skilað áliti sínu.

Síðast var skipað í Hæstarétt undir lok síðasta árs en þá var Ingveldur Einarsdóttir skipuð dómari við réttinn. Auk Ingveldar voru landsréttardómararnir Davíð Þór Björgvinsson og Sigurður Tómas Magnússon metnir hæfastir í embættið.

Á síðasta ári ákváðu Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson að hætta sem hæstaréttardómarar en báðir höfðu náð 65 ára aldri. Ein staða var auglýst en með brotthvarfi þeirra fækkaði dómurum við réttinn úr átta í sex. Samkvæmt dómstólalögum eru dómarar við æðsta dómstól landsins sjö talsins.

Ástæðan fyrir auglýsingunni nú er sú að Helgi Ingólfur Jónsson hefur beðist lausnar úr embætti. Helgi hefur verið hæstaréttardómari frá árinu 2012 en dómari allt frá árinu 1980. Tveir dómarar til viðbótar, Greta Baldursdóttir og Þorgeir Örlygsson, forseti réttarins, eru síðan bæði eldri en 65 ára en við það mark er hæstaréttardómara heimilt að biðjast lausnar og halda embættislaunum.

Umsóknarfrestur um embættið er til og með 16. mars næstkomandi.