Í lok 4. ársfjórðungs bjuggu 332.750 manna á Íslandi, en þeim fjölgaði um 1.440 í fjórðungnum. Kynjaskiptingin er 167.410 karlar og 165.340 konur.

Á 4. ársfjórðungi 2015 fæddust 970 börn, en 520 einstaklingar létust. Á sama tíma fluttust 990 einstaklingar til landsins umfram brottflutta, af þeim var tæplega helmingur á þrítugsaldri. Brottfluttir einstaklingar með íslenskt ríkisfang voru 160 umfram aðflutta og var aldurskipting þeirra nokkuð jöfn. Aðfluttir erlendir ríkisborgarar voru 1.140 fleiri en þeir sem fluttust frá landinu og voru 740 af þeim 20-39 ára.

Flestir aðfluttir íslenskir ríkisborgarar komu frá Danmörku, eða 150, frá Noregi komu 140 og frá Svíþjóð komu 60. Fjölmennasta upprunaland erlendra ríkisborgara var Pólland, eða 650 manns af samtals 1.710.