United Airlines segist vera að kanna möguleika á að senda um helming mannafla síns í launalaust leyfi. WSJ segir frá .

Flugfélagið hefur sent 60 daga fyrirvara um launalaust leyfi, í samræmi við vinnuréttarlöggjöf, til 36 þúsund starfsfólks. Tilkynningin kemur rúmri viku eftir að félagið tilkynnti að það hefði um 20 þúsund starfsfólk umfram þörf miðað við minni eftirspurn.

Bandaríski flugrisinn sagði að meðal þeirra sem fá fyrirvara um mögulegt launalaust leyfi séu 15 þúsund flugþjónar, 2.250 flugmenn og 11 þúsund þjónustustarfsfólk en félagið tók fram að það gæti endurráðið starfsfólk þegar eftirspurn nær sér aftur á strik.

Sjá einnig: Tekur lán með vildarkerfi að veði

Flugfélagið segist vera að tapa 40 milljónum dollara á hverjum degi. Stjórnendur þess telja styrki bandaríska ríkisins hafa gefið þeim tíma til þess að endurskipuleggja starfsemina og afla fjármagn í gegnum einkageirann. Einn háttsettur stjórnarmaður hjá United segir félagið þó ekki gera ráð fyrir frekari ríkisstyrkjum til að dekka launakostnað eftir 1. október næstkomandi.

Hlutabréf United hafa fallið um tæplega 64% frá upphafi árs.