Þær Hilda Jana Gísladóttir og María Björk Ingvadóttir hafa verið ráðnar framkvæmdastjórar fjölmiðlafyrirtækisins N4, en þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu.

María Björk verður framkvæmda- og rekstrastjóri á meðan Hildur Jana verður framkvæmda- og sjónvarpsstjóri. Hafa þær báðar unnið hjá fyrirtækinu um nokkurra ára skeið, en alls starfa þar 17 manns.

Jón Steinar Árnason, formaður stjórnar N4, segir að með ráðningunni vilji stjórnin undirstrika kraft kvenna og sé það vel við hæfi á árinu sem fagnað er 100 ára kosningarafmæli kvenna.

„Stefna N4 er metnaðarfull og miðar að því að bjóða áhorfendum sínum upp á vandað efni frá öllum landshlutum, auk þematengdra þátta eins og þátta um orkumál og málefni landbúnaðar og sjávarútvegs. Við vitum að fyrirtækið er í góðum höndum kvennanna tveggja“ segir Jón Steindór.

María Björk hefur starfað um árabil í fjölmiðlum, m.a. hjá RÚV. Hildur Jana hefur starfað í fjölmiðlum undanfarin 15 ár, m.a. sem fréttamaður á Aksjón, RÚV og Stöð 2.