Hildur Friðriksdóttir félagsfræðingur og fyrrverandi blaðamaður hefur verið ráðin verkefnisstjóri með fagnámi fyrir verslunarfólk. Námið hefst um næstu áramót í Verslunarskólanum og verður í fyrstu boðið aðeins starfandi starfsmönnum verslana en stendur síðar öllum til boða. Þetta er í fyrsta sinn sem boðið verður uppá heilsteypt starfstengt fagnám fyrir verslunarfólk, en í smásöluverslunum starfa um 12.000 manns.

Hér er tvímælalaust um að ræða stærsta átak sem gert hefur verið í fagmenntun verslunarfólks. Á undanförnum árum hafa verslanir sjálfar þurft að leysa úr menntunarþörf stéttarinnar með því að stofna eigin skóla eða fræðslusetur innan fyrirtækjanna. Frumkvæðið að námsbraut fyrir verslunarfólk áttu SVÞ og fræðslustjórar innan verslanafyrirtækjanna, en verkefnið hefur verið undirbúið í samstarfi við VR. Verkefnisstjórnun hefur fram að þessu verið í höndum Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins sem hefur séð um viðamikla þarfagreiningu, námskrárgerð og faglega ráðgjöf.

Starfsmenntasjóður verslunar og skrifstofufólks og Starfsmenntaráð hafa styrkt verkefnið og gert er ráð fyrir að stærstu fyrirtækin í smásöluverslun styrki það jafnframt á meðan verið er að móta það enn frekar.

Með ráðningu Hildar í starf verkefnisstjóra er nýjum áfanga náð í þessu viðamikla verkefni, en hennar hlutverk verður að vinna áfram með þá þarfagreiningu sem liggur fyrir og námsskrá og sjá til þess að kennsla og önnur framkvæmd námsins fari fram í samræmi við þessa undirbúningsvinnu. Áhersla verður lögð á að mæta þörfum allra hlutaðeigandi, þ.e. fyrirtækjanna, þátttakendanna og fræðsluyfirvalda.