Hildur Sverrisdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir þurfa að stokka upp borgarkerfið til að leysa bráðan vanda í borgarfjármálunum. Hún segir vandann vera orðinn það stóran að það þýði ekki að benda á einstaka útboð eða aðgerð sem mætti fara betur.

Fjármál Reykjavíkurborgar voru til umræðu í þættinum Vikulokin á Rás 1 í morgun, en A-hluti borgarinnar var rekinn með 3 milljarða króna halla á fyrri helmingi ársins. Það er rúmum milljarði króna meiri halli en upphaflega var áætlaður.

Meirihlutinn er klár í að gera fallega hluti

Hildur sagði að þessi skuld væri ekki að fara að gufa upp. „Meirihlutinn getur ekki hækkað skatta meira á borgarbúa. Eftir stendur að það verða hækkaðar gjaldskrár, eða tekið lán. Mér finnst vanta meiri gagnrýna sýn á kerfið í heild, því þessi vandi er, eins og við leyfðum okkur að reikna út, 700.000 krónur á hvern einasta klukkutíma frá 1. janúar til 30. júní,“ sagði hún.

Hildur sagði umræðu um að lækkandi álverð skýri slæma niðurstöðu hjá Orkuveitunni ekki koma málinu við. „Það skýrir alveg eitthvað, en það á ekki að skipta máli. Að geta ekki rekið grunnþjónustuna fyrir þá peninga sem þú færð fyrir hana, það gengur einfaldlega ekki upp.“ 3 milljarða halli kalli á að stokka þurfi upp allt borgarkerfið.

„Ég skil alveg hversu freistandi það er að ýta vandanum á undan sér, leyfa sér að hafa gaman á sínu kjörtímabili og gera alls konar fallega og skemmtilega hluti. Meirihlutinn er mjög klár í því að gera marga fallega hluti, þetta er fallegt og gott fólk. En þau hafa bara ekki efni á því.

Það verður að leyfa sér að taka allt kerfið upp aftur og rýna það öðruvísi, legga aðrar áherslur og þora að forgangsraða.“

Fjármálaskrifstofan gefi aðvörunarljós

Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, sagðist vera sammála Hildi og að það væri óásættanlegt að reyna að fela slæman rekstur A-hluta borgarinnar með því að benda á B-hlutann. Rekstur Orkuveitu Reykjavíkur sveiflist með álverði og gengi dollarans, en það hafi ekkert með rekstur Reykjavíkurborgar að gera.

Hildur sagði embættismenn í fjármálaskrifstofu borgarinnar vera að gefa mjög rauð aðvörunarljós. „Ég held að þau kvitti upp á neyðarstjórnarhugmyndir okkar um að þarna sé mikil hætta ef ekkert er að gert.“