Í vegvísi Landsbankans í gær kemur fram að Landsbankinn spáir 25 punkta hækkun á stýrivöxtum í vikunni, en ákvörðun um stýrivexti verður tilkynnt í Seðlabankanum næstkomandi fimmtudag.

„Að okkar mati mun Seðlabankinn fyrst og fremst horfa til vaxandi verðbólgu og aukins hagvaxtar við ákvörðum stýrivaxta á fimmtudaginn í næstu viku. Í ljósi framvindunnar síðustu vikur og röksemdafærslu í síðustu Peningamálum þegar vextir voru hækkaðir um 45 punkta, virðast mestar líkur á því að niðurstaðan verði enn frekari hækkun vaxta um 25 punkta að þessu sinni. Stýrivextir hækka því í 14% gangi spá okkar eftir," seg5r í vegvísi Landsbankans.

Þá segir einnig að þróun verðbólgunnar síðustu mánuði hefur ekki verið í takt við það sem Seðlabankinn reiknaði með í síðustu Peningamálum frá því í byrjun nóvember. Nú er ljóst að verðbólgan á 4. ársfjórðungi verður 5,2% en ekki 4,8% eins og spá Seðlabankans gerði ráð fyrir. Horfur fyrir næsta ár eru óljósar en ljóst má vera að töluvert langt er í land til þess að markmið um 2,5% verðbólgu verði að veruleika.

Ekkert lát á hagvexti

Hagstofan birti tölur um landsframleiðslu á 3. ársfjórðungi þar sem í ljós kemur að hagvöxtur var 4,3% á ársgrundvelli og hefur aukist jafnt og þétt það sem af er ári. Aukning einkaneyslunnar er enn meiri eða 7,5% á 3. ársfjórðungi en einkaneyslan hefur einnig vaxið með stígandi hraða það sem af er ári. Tölur um kortaveltu fyrstu 11 mánuði ársins benda til þess að eitthvað kunni að draga úr vexti einkaneyslunnar á 4. ársfjórðungi, en ljóst má vera að í heild verður aukning einkaneyslunnar nokkuð umfram það sem Seðlabankinn spáði í nóvember. Aðrar vísbendingar sem Seðlabankinn er líklegur til að taka mið af eru tölur um atvinnuleysi sem ekki benda til þess að slaki sé að myndast í hagkerfinu.

Hækkandi vaxtamunur

Það sem líklegast er til þess að halda aftur af vaxtahækkunum Seðlabankans við núverandi aðstæður er fyrst og fremst óróinn á alþjóðlegum fjármálamörkuðum, sem dregið hefur úr útlánagetu fjármálafyrirtækja, þar með talið þeirra íslensku. Lækkun stýrivaxta í Bandaríkjunum og í Bretlandi hefur í raun aukið aðhald peningastefnunnar vegna hækkandi vaxtamunar. Það er einnig umhugsunarvert hversu ákveðið Seðlabankinn í Bandaríkjunum hefur framfylgt vaxtalækkunarstefnu þrátt fyrir að verðbólgan þar á bæ fari hratt vaxandi segir í vegvísi LÍ í gær.

Í morgunkortni Glitnis í gær kemur fram að bankinn gerir ráð fyrir óbreyttum vöxtum en útilokar þó ekki að vextir kunni að hækka í ljósi þeirra hagtalna sem birtar voru í vikunni. Þá segir Glitnir að mikill vaxtamundur við útlönd komi til með að styrkja krónuna á næstu mánuðum.