Gengi hlutabréfa Facebook hefur fallið viðstöðulítið frá því opnað var fyrir viðskipti með bréfin á bandarískum markaði í dag. Þau höfðu fallið um rúm 2% í utanþingsviðskiptum og bætti heldur í þegar hlutabréfamarkaðurinn opnaði. Fallið nemur nú tæpum 13% og fór gengið lægst niður í 33 dali á hlut. Það er fimm dölum undir útboðsgengi á fimmtudag í síðustu viku og og heilum 9 dölum frá fyrstu viðskiptunum með þau á föstudag.

Á fyrsta viðskiptadegi á föstudag var Facebook metið á 104 milljarða dala. Markaðsverðmæti félagsins er nú komið í rétt rúma 90 milljarða og því ljóst að rúmlega 10 milljarðar hafi fokið út um gluggann.

Fjármálasérfræðingar segja hlutabréfin hafa verið of hátt verðlögð og fjárfestar sem hafi tekið þá í útboði netfyrirtækisins tekið út hagnað sinn þegar bréfin fóru á almennan markað í síðustu viku.