Hlutabréf hafa hækkað í Evrópu í morgun og er þetta því þriðji dagurinn í röð sem hlutabréf hækka. Stýrivaxtalækkanir víðs vegar um heiminn eru sagðar helstu ástæður hækkunarinnar að sögn Reuters fréttastofunnar.

FTSEurofirst 300 vísitalan hefur hækkað um 1% það sem ef er degi en vísitalan hækkaði um rúm 7% í gær. Þó er rétt að taka fram að vísitalan hefur lækkað um 40% það sem af er þessu ári.

Hækkanir dagsins í dag eru þó hvergi nærri því sem gerðist í gær og í fyrradag.

Í Lundúnum hefur FTSE 100 vístalan hækkað um 0,6%, í Amsterdam hefur AEX vísitalan einnig hækkað um 0,6% og í Frankfurt hefur DAX vísitalan hækkað um 2,4%.

Í París hefur CAC 40 vísitalan hækkað um 1% og í Sviss hefur SMI vísitalan hækkað um 0,8%.

Í Kaupmannahöfn hefur OMXC vísitalan hækkað um 2,7%, í Stokkhólmi hefur OMXS vísitalan hækkað um 2,6% og í Osló hefur OBX vísitalan hækkað um 3,7%.