Hlutabréf hækkuðu í Evrópu í dag og hækkaði FTSEurofirst 300 vísitalan um 0,8%. Vísitalan hefur þannig hækkað um 4% á einni viku sem er mesta hækkun á einni viku í heilt ár að sögn Reuters fréttastofunnar.

Eins og áður hefur komið fram hafa hrávörur hækkað nokkuð í verði síðustu daga. Þannig hækkaði gull um 2% í dag og olía um 3,1%. Í kjölfarið hækkaði námufyrirtæki Anglo American um 4% en fyrirtæki í sama geira hækkuðu í dag.

Bankar létu ekki sitt eftir liggja og hækkaði UBS bankinn til að mynda um 5,8% í dag en Reuters greinir frá því að nokkrar greiningadeildir í Evrópu segja bankann hafa unnið sér inn mikið traust með því að gefa þau skilaboð að bankinn kynni að selja frá sér eða aðskilja fjárfestingahlið bankans frá hefðbundinni bankastarfsemi.

Í Lundúnum hækkaði FTSE 100 vísitalan um 1,1%, í Frankfurt hækkaði DAX vísitalan um 0,9% og í Amsterdam hækkaði AEX vísitalan um 1%. Þá hækkaði CAC 40 vísitalan í París um 0,9%.

Í Kaupmannahöfn hækkaði OMXC vísitalan um 1,5% og OBX vísitalan í Osló um 2,1%.