Hagnaður samheitalyfjafyrirtækisins Barr á síðasta fjórðungi fjárhagsárs var um 5,8 milljarðar króna, en hagnaður fyrirtækisins var um þrír milljarðar króna á sama tíma í fyrra, segir í frétt Dow Jones.

Aukin lyfjasala og tekjur frá samstarfi við lyfjafyrirtækin Teva og Kos eru sagðar ástæður aukningarinnar. Tekjur fyrirtækisins voru 24,8 milljarðar á fjórðungnum, en voru 19,8 milljarðar á sama tíma í fyrra. Greiningaraðilar höfðu spáð 22,8 milljarða tekjum, segir í fréttinni.

Sala á samheitalyfjum jókst um 17% á tímabilinu, eða í 15,6 milljarða króna. Sala á sérlyfjum fyrirtækisins jókst um 21%, í 6,8 milljarða, þá sérstaklega í getnaðarvörnum fyrirtækisins. Á tímabilinu samþykktu yfirvöld í Bandaríkjunum að endurskoða umsókn Barr um að selja svonefndar "eftirá" töflur án lyfseðils. Yfirtökuboð Barr í króatíska félagið Pliva var einnig staðfest á fjórðungnum.

Gengi hlutabréfa í Barr hækkaði um 7% í kjölfar uppgjörsins, í 55,97 dali á hlut. Gengi bréfa í öðrum lyfjafyrirtækjum hækkaði einnig við fregnir af uppgjörinu, bæði lyfja- og líftæknivísitölur Amex hafa hækkað um 0,9%. Fyrirtækið Sanofi-Aventis hækkaði um 3,8%, Bristol-Myers hækkaði um 1,8% og Novavax hækkaði um 5,6%.