Bandaríska streymiþjónustufyrirtækið Netflix skilaði árshlutauppgjöri sínu fyrir fjórða ársfjórðung í gær. Nam hagnaður fyrirtækisins á tímabilinu 83 milljónum Bandaríkjadala á tímabilinu, en fjárhæðin samsvarar tæpum ellefu milljörðum íslenskra króna. BBC News greinir frá.

Eftir að Netflix hafði kynnt uppgjörið, sem var töluvert betra en búist hafði verið við, tók gengi hlutabréfa í fyrirtækinu stökk um meira en 12%.

Í uppgjörinu kom meðal annars fram að erlendum áskrifendum hefur fjölgað nokkru hraðar en vænst hafði verið. Áskrifendur í heild eru 57,4 milljónir talsins á heimsvísu, en þar af eru erlendir áskrifendur 18,28 milljónir.

Á sama ársfjórðungi fyrir ári síðan nam hagnaður fyrirtækisins 48 milljónum dala sem þýðir að fyrirtækið nær tvöfaldaði hagnaðinn á milli ára.