*

laugardagur, 16. október 2021
Innlent 5. maí 2021 17:45

Marel hækkar um 3,1%

Hlutabréf Marel hækkuðu í dag um 3,1%, þriðja daginn í röð var meiri velta með skuldabréf en hlutabréf.

Ritstjórn

Hlutabréf Marel hækkuðu mest allra félaga í dag eða um 3,1% og nam velta með hlutabréf Marel 1,2 milljörðum. Ástæðuna má rekja til skilyrða vegna kauprétta sem nýttir voru í dag og veittir voru á fimm ára tímabili frá 2014 til 2018. Þá var heildarfjöldi nýttra kauprétta rúmlega 3,5 milljónir og var meðalverðið á þeim 2,47 evrur á hlut.

Hlutabréf Origo hækkuðu næst mest eða um 1,7% í 101 milljóna veltu og hlutabréf Sýn komu þar á eftir með 1,47% hækkun í 23 milljóna veltu. Hlutabréf Vís lækkuðu mest í dag eða um 1,53% í 246 milljóna veltu.

Þriðja daginn í röð var meiri velta á skuldabréfamarkaði en á hlutabréfamarkaði. Velta með hlutabréf nam 3,8 milljörðum en velta með skuldabréf 12,6 milljörðum. Þá náði Úrvalsvísitalan að rétta sig af eftir gærdaginn en hún hækkaði um 1,7% í dag eftir að hafa lækkað um 1,7% í gær.