Gengi hlutabréfa stoðtækjafyrirtækisins Össurar hefur fallið um 2,02% í Kauphöllinni eftir að það birti uppgjör sitt í dag. Hagnaður félagsins nam um 9,9 milljónum dala á þriðja ársfjórðungi sem er 2,5% samdráttur frá sama tíma í fyrra. Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar, segir í afkomutilkynningunni uppgjörið undir væntingum.

Gengi hlutabréfa Össurar stendur nú í 194 krónum á hlut og hefur það ekki verið lægra síðan í mars á þessu ári. Í dönsku kauphöllinni hefur gengið lækkað um 1,9% það sem af er degi. Það stendur í 7,8 krónum á hlut og hefur það ekki verið lægra á árinu.