Hlutabréfamarkaðir tóku dýfu á mánudaginn víðs vegar um heim, þegar fjárfestar leituðu skjóls í öruggari eignum á borð við ríkistryggð skuldabréf. Nýmarkaðir fengu versta skellinn og MSCI vísitalan fyrir hlutabréf í þeim löndum lækkaði tíunda daginn í röð. Það var versta tímabil vísitölunnar síðan 1998, þegar órói í Rússlandi breiddist út um heiminn.

Viðskipti voru stöðvuð á indverska hlutabréfamarkaðinum á mánudaginn eftir að vísitalan hafði lækkað um tíund í byrjun dags. Eftir inngrip embættismanna og hlé til að róa markaðinn hófust viðskipti aftur og varð lokagildi vísitölunnar 4,2% lægra en þegar viðskipti höfðu hafist á mánudagsmorguninn.

Rússnesk hlutabréf lækkuðu um 9,1%, tyrknesk um 8,3%, brasilísk um 2,4% og sænsk um 5%. Stærstu hlutabréfamarkaðirnir fengu einnig að kenna á því; bandaríska S&P 500 vísitalan lækkaði um 0,5% og um tíma á mánudaginn var gildi hennar komið niður fyrir gildið í byrjun árs.

Í Evrópu lækkuðu flestar vísitölur um u.þ.b. 2%. FTSE í London seig um 2,2% og náði lægsta gildi í hálft ár.

Í umfjöllun The Wall Street Journal segir að ótti við hækkandi vexti hafi valdið því að fjárfestar hafi flúið hávaxtasvæði, fyrrnefnd nýmarkaðslönd, þar sem áhættan sé hlutfallslega mikil. Lækkun á mörkuðum á borð við Tyrkland, Indland, Rússland og Brasilíu hafi viðamiklar afleiðingar fyrir bandaríska fjárfesta. Hlutabréf á nýmörkuðum hafi hækkað miklu meira en annars staðar síðustu þrjú ár og fyrrnefnd MSCI vísitala hækkað um nærri 200%.

Á þessu tímabili hafi fjárfestar í Bandaríkjunum, undir forystu vogunarsjóða og áræðinna verðbréfasjóða, dælt peningum í áhættumeiri hagkerfi þar sem vextir hafi verið hærri (Ísland hefur verið nefnt í því sambandi) í þeirri von að fá hærri ávöxtun en á heimamarkaði. Hækkandi vextir heima fyrir valdi því nú að fjármagnið leiti til baka, með þeim afleiðingum að hlutabréf í hávaxtalöndum lækki.