Helstu hlutabréfavísitölur á alþjóðlegum mörkuðum tóku hressilega við sér eftir að bankastjórn bandaríska seðlabankans greindi frá því í gær að stýrivöxtum verði haldið lágum áfram. Aðgerðin byggir á því að draga úr áhrifum þess þegar dregið verður úr örvun efnahagslífsins með kaupum á ríkisskuldabréfum og öðrum álíka aðgerðum.

Bandaríski seðlabankinn hefur upp á síðkastið keypt skuldabréf fyrir 85 milljarða dala á mánuði en mun lækka fjárhæðina um 10 milljarða. Breska ríkisútvarpið (BBC) segir áhrifin af þessu minni en óttast var.

Fjárfestar í Bandaríkjunum voru fyrstir til að taka við sér í gær. Dow Jones-hlutabréfavísitalan hækkaði um 1,84%. Bæði Nasdaq- og S&P 500-vísitölurnar hækkuðu um rétt rúmlega 1%. Þá hækkaði hafði ákvörðunin jafnframt áhrif í Asíu í nótt, s.s. á Nikkei-vísitöluna í Japan sem hækkaði um 1,74% og endaði hún í 15.589 stigum. Hún hefur ekki verið á þessum slóðum síðan í desember árið 2007.