Á morgun fer fram hluthafafundur hjá Fáfni Offshore þar sem gera má ráð fyrir að meirihluti hluthafa muni ná fram samþykki á því að félagið ráðist með hraði í skuldabréfasölu. Ketill Sigurjónsson greinir frá þessu á bloggsíðu sinni, Orkublogginu.

Þar segir að skuldabréfaútgáfan myndi auka skuldir félagsins um 195 milljónir króna. Tilgangurinn sé að útvega félaginu fé til að eiga fyrir greiðslu til norsku skipasmíðastöðvarinnar Havyard vegna Fáfnis Víking, en það skip er í smíðum fyrir félagið. Fyrir á félagið þjónustuskipið Polarsyssel.

Fara yfir tölvupósta Steingríms

Skuldabréfin eiga að bera 20% ársvexti auk þess sem ráðgert er að kaupendur bréfanna geti breytt þeim í hlutafé og þannig eignast allt að 60% hlut í félaginu. Nafnverð skuldabréfanna yrði 195 milljónir króna.

Þá liggur fyrir fundinum að fara yfir tölvupósta fyrrum forstjóra félagsins, Steingríms Erlingssonar. Ketill veltir því upp hvort tilgangurinn sé að stjórnin sé í leit að blóraböggli vegna slæmrar stöðu félagsins.

Vildi fá Ketil í stjórn

Fram kemur í grein Ketils að Steingrímur hafi óskað eftir því að Ketill gæfi kost á sér í stjórn Fáfnis Offshore, en til stendur að fjölga í stjórninni um einn mann.

Ketill segist hafa ákveðið að slá til, en segir að af því virðist ekki geta orðið þar sem aðrir hluthafar hafi tilnefnt annan mann í stjórnina.

Grein Ketils Sigurjónssonar.