*

þriðjudagur, 18. júní 2019
Innlent 20. september 2018 12:47

Óánægja meðal hluthafa við útrás Eikar

Óánægja er meðal margra af stærstu hluthöfum Eikar vegna áforma um að fjárfesta í lagerhúsnæði í Bretlandi.

Ingvar Haraldsson
Garðar Hannes Friðjónsson, forstjóri Eikar.
Haraldur Guðjónsson

Óánægja er meðal margra af stærstu hluthöfum fasteignafélagsins Eikar um áform félagsins um að fjárfesta í lagerhúsnæði í Bretlandi. 

Félagið tilkynnti í lok ágúst að það hefði skrifað undir áskriftarloforð upp á 10 milljónir punda, tæplega 1,5 milljarða króna, fjárfestingu í framtakssjóðnum NW1 UK Logistics LP í Bretlandi. Þá er stefnt á að stjórn félagsins fái heimild til að allt að 5% af eignum félagsins verði erlendar. Heildareignir félagsins námu um 90 milljörðum króna í lok síðasta ársfjórðungs, sem þýðir að erlendar fjárfestingar Eikar gætu numið allt að 4,5 milljörðum króna að öðru óbreyttu.

Stefnt er að því að boða til hluthafafundar þar sem leggja á fram tillögu um að breyta samþykktum félagsins áður en gengið verði frá fjárfestingum erlendis. Óvíst er hvort meirihluti hluthafa styður stefnuna. Viðskiptablaðið hefur heimildir fyrir því að stórir hluthafar félagsins hyggist leggjast gegn tillögunni og telji að betur færi á því að Eik skili fjárfestum fénu sem gætu þá geti tekið ákvörðun um hvort þeir hafi áhuga á að fjárfesta í fasteignum í Bretlandi. 

„Þetta kom okkur dálítið spánskt fyrir sjónir,“ segir Gylfi Jónasson, framkvæmdastjóri Festu, lífeyrissjóðs, sem er meðal stærstu hluthafa Eikar. 

„Það má segja að það sé ekki endilega hluti af kjarnastarfsemi Eikar að fjárfesta í fasteignasjóðum. Hvað varðar lífeyrissjóðina, þá eru þeir náttúrulega fjárfestar í erlendum fasteignasjóðum. Við erum ekki alveg að sjá að þetta sé hluti af kjarnastarfsemi þessa félags,“ segir Gylfi. 

Hann vill þó ekki segja til um hvernig lífeyrissjóðurinn muni greiða atkvæði þegar tillaga um breyttar samþykktir félagsins verði lögð fyrir hluthafafund. 

Ætla ekki að taka yfir Bretland

 Garðar Hannes Friðjónsson, forstjóri Eikar, segir að hin fyrirhugaða fjárfesting geti haft ýmsa kosti í för með sér. „Það eru skiptar skoðanir og í raun og veru er ekkert rétt svar, bara áherslumunur,“ segir Garðar. 

Hann bendir á að þó að stórir hluthafar geti fjárfest í fasteignaverkefnum í Bretlandi sé ekki víst að minni hluthafar félagsins geti gert slíkt hið sama. „Við erum að reyna að horfa á hagsmuni Eikar í heild sinni, út frá öllum hluthöfum,“ segir Hannes. 

Þá leggur Garðar áherslu á að fara eigi hægt í sakirnar. „Við erum ekki að fara að taka yfir Bretland eða eitthvað slíkt heldur viljum við gera þetta með mjög varfærum hætti með því að fjárfesta með traustverðum aðila sem við ætlum að vinna með fyrir lága fjárhæð,“ segir Garðar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is