*

laugardagur, 4. desember 2021
Innlent 11. nóvember 2021 10:15

Erlendir sjóðir selja í Íslandsbanka

Hlutur erlendra sjóða í Íslandsbanka hefur lækkað úr 10,5% í 7,8%. Félag Sveins Valfells er komið með 380 milljóna hlut.

Sigurður Gunnarsson
Haraldur Guðjónsson

Hlutur erlendra fjárfesta í Íslandsbanka nemur í dag 7,8% en alls var þeim úthlutað um 10,5% hlut í frumútboði bankans í júní. Þar af er hornsteinsfjárfestirinn Capital World með 4,3% hlut en hann fékk úthlutað 3,8%. Hinn hornsteinsfjárfestirinn RWC hefur selt um þriðjung af því sem hann fékk úthlutað og fer í dag með um 1% hlut. Stuttu í kjölfar útboðsins seldu sex erlendir sjóðir öll bréf sín í bankanum, að því er Markaðurinn greindi frá á sínum tíma.

Á móti kemur hafa íslenskir lífeyrissjóðir verið að stækka hlut sinn í bankanum og má þar nefna að LSR keypti um 0,6% hlut, LIVE 0,3% og Stapi í það minnsta 0,2% hlut í október.

Félag Sveins Valfells með 380 milljóna hlut

Samkvæmt lista yfir alla hlutahafa Íslandsbanka, sem Viðskiptablaðið hefur séð, er Kadúseus ehf. komið með 0,15% hlut í bankanum, að markaðsvirði 380 milljónum króna, en félagið var með um 0,05% hlut í kjölfar útboðsins í júní.

Kadúseus var stofnað fyrr í ár og er skráð í 80% eigu Sveins Valfells og sonur hans Ársæll Valfells er stjórnarformaður samkvæmt Fyrirtækjaskrá. Sveinn, sem starfaði sem forstjóri Steypustöðvarinnar í áraraðir, sat í bankaráði Íslandsbanka á sínum tíma.