*

föstudagur, 21. janúar 2022
Innlent 20. ágúst 2021 09:23

Hófleg hækkun í júlí

Íbúðaverð hækkaði að meðaltali um 0,7% milli júní og júlí. Hækkun mælst 1,4%-3,3% frá mars og fram til þessa.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði að meðaltali um 0,7% milli júní og júlí. Fjölbýli hækkaði um 0,1% og sérbýli um 3,0%. Vegin árshækkun mælist nú 15,4% og hefur lækkað frá því í júní, er hún mældist 16%. Þetta kemur fram í nýbirtri Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans.

„Það mælist talsverður munur á verðþróun eftir gerð húsnæðis. 12 mánaða hækkun sérbýlis mælist nú 18,9%, hækkar frá því í júní, og hefur ekki verið hærri síðan í nóvember 2017. Á sama tíma mælist 12 mánaða hækkun fjölbýlis 14,1% og lækkar frá því í júní, þegar hún mældist 15,3%,“ segir í Hagsjánni. 

Þó er bent á að alla jafna sé meira flökt á verðþróun sérbýlis milli mánaða þar sem mun færri samningar séu undir, í  samanburði við fjölbýli. En hækkunin milli mánaða nú sé þó engu að síður nokkuð mikil. Þróunin hafi verið slík frá upphafi Covid-faraldursins að eftirspurnin virðist hlutfallslega hafa aukist meira eftir stærri eignum í sérbýli sem hækki því meira í verði.

„Það er óhætt að segja að þessi litla hækkun milli mánaða nú sé kærkomin tilbreyting eftir miklar hækkanir síðustu mánaða, en frá því í mars hefur hækkunin milli mánaða mælst á bilinu 1,4%-3,3%. Það er alls óvíst á þessari stundu hvort almennt sé farið að hægja á, eða hvort um tímabundin áhrif sumarleyfa sé að ræða,“ segir einnig í Hagsjá Landsbankans.