„Þeir sem geta séð fyrir breytingar á heimsmarkaðsverði eru ekki launamenn heima á Íslandi heldur sigla skútum um Karíbahafið,“ segir Eggert Benedikt Guðmundsson, forstjóri N1. Hann skilur óánægju fólks með verðlagningu á bensíni og díselolíu enda um stóran lið að ræða í heimilisbókhaldinu.

Hann bendir á að langstærsti hlutinn af eldsneytisverði ráðist af tveimur liðum: innkaupsverð frá útlöndum, sem ræðst nánast eingöngu af heimsmarkaðsverði og gengi krónunnar, og hins vegar opinber gjöld, sem eru um helmingur af söluverði eldsneytis.

„Það sem olíufélögin hafa úr að spila er hlutfallslega lítið. Þegar tekið er tillit til kostnaðar af rekstri félaganna þá verður þetta svigrúm ennþá minna. Sem skýrir líka af hverju eldsneytisverð og viðskiptakjör verða svona lík á milli félaga. Það er ekki af því að við forstjórarnir sitjum við símann alla daga og ákveðum hvað bensínið á að kosta heldur er það af því að við erum horfa á sömu tölurnar,“ segir hann. „Síðan förum við í aðgerðir hér á Íslandi og eitt af því sem við notum til að tuskast á þessum markaði eru ýmsir afsláttardagar. Þá kemur það náttúrulega fyrir að þeir lenda í einhverjum takti sem lítur mjög skringilega út. En það er ekki nema tilviljun. Það er ekki eins og menn séu að hækka og lækka verð til að svína á kúnnunum – það er ekki sérstakt áhugamál okkar,“ segir Eggert.

Ítarlegt viðtal við Eggert má lesa í síðasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .