Nýverið keypti Miðbæjarfélagið ehf. í Reykjavík eignina Byggðarhorn í Árborg á 450 milljónir króna. Hins vegar höfðu feðgarnir Sigurður Fannar Guðmundsson og Guðmundur Sigurðsson keypt jörðina af Gísla Geirssyni fyrir sex mánuðum síðan á 105 milljónir. Í millitíðinni hafa þeir feðgar látið leggja vegi og verið með aðrar framkvæmdir á svæðinu fyrir um 70 milljónir króna. Þeir hafa því hagnast um 275 milljónir króna við sölu á jörðinni.


Byggðarhorn er 150 hektarar að stærð og þar er búið að deiliskipuleggja 26 lóðir í búgarðabyggð. "Það má segja að salan sem slík hafi gengið mun hraðar fyrir sig en við áttum von á. Það er greinilega mikill áhugi fyrir þessari hugmyndafræði að fólk vilji búa rúmt um sig á stórum lóðum. Þetta hefur líka mætt miklum velvilja frá sveitarfélaginu, enda hefur þetta verið fagmannlega unnið, sem er kannski ástæðan fyrir því hve þetta seldist hratt. Þetta verður einnig að teljast sanngjarnt verð í miðað við markaðsverð á þessu svæði á Suðurlandi. Þetta er eitt af þeim verkefnum sem við höfum verið með undanfarið, í Árborg og Hveragerði og erum einnig að skoða möguleikana í Ölfusi og í Reykjavík", sagði Sigurður Fannar Guðmundsson í samtali við Viðskiptablaðið.