Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra lagði í vikunni fram á Alþingi fjárlagafrumvarp næsta árs. Stóra myndin er sú að gert er ráð fyrir því að heildarútgjöld ríkissjóðs muni nema 743,4 milljörðum króna en tekjur 772 milljörðum. Það er sem sagt gert ráð fyrir 28,5 milljarða króna afgangi, sem er um 1% af vergri landsframleiðslu (VLF).

Í frumvarpinu kemur fram að horfur í ríkisfjármálum hafi batnað hratt á undanförnum árum, sem endurspeglist meðal annars í betri lánshæfiseinkunn hjá erlendum lánshæfismatsfyrirtækjum.

Gert er ráð fyrir því að skuldir opinberra aðila í heild verði 59% af vergri landsframleiðslu á næsta ári en að hlutfallið verði komið niður í 49% árið 2021. "Hröð lækkun skulda byggist að miklu leyti á stöðugleikaframlögum og arðgreiðslum fjármálafyrirtækja, en einnig á batnandi afkomu ríkisins og annarra opinberra aðila," segir í frumvarpinu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .