Humarhátíð á Hornafirði er orðin fastur liður í tilverunni og þangað streyma þúsundir Íslendinga ár hvert. Í sumar stendur hátíðin í heila viku eða frá mánudeginum 29. júní til sunnudagsins 5. júlí. Einn af forsvarsmönnum hátíðarinnar er Valdemar Einarsson, framkvæmdarstjóri íþróttafélagsins Sindra. Hann segist gera sér vonir um fjölmenni að þessu sinni þar sem fleiri Íslendingar hyggist ferðast innanlands en venjulega.

„Þetta er í 17. skiptið sem hátíðin er haldin, en Íþróttafélagið Sindri eða knattspyrnudeild þess og Björgunarfélag Hornafjarðar standa að hátíðinni að þessu sinni. Auk þess stendur bærinn straum af hluta kostnaðar og leggur til húsnæði.

Ég á von á miklum fjölda núna, en það hefur verið mjög mismunandi hversu margir hafa komið á hverju ári. Við vorum svolítið óheppin í fyrra með veðrið auk þess var 20.000 manna landsmót hestamann á Hellu á sama tíma. Nú er því ekki til að dreifa.

Hér er mikið gistirými, en ég hugsa að það sé þegar orðið meira og minna uppbókað. Þá erum við með mjög gott tjaldstæði hér inni í bænum sem er bæði fallegt og vel útbúið. Mikið af fólkinu sem kemur er líka að heimsækja vini og kunningja og gistir þá hjá þeim eða tjaldar í görðum. Við stefnu á að þetta verði vegleg hátíð fyrir alla fjölskylduna.

Svo erum við búnir að panta góða veðrið, við eigum það inni. Það er því ekki spurning að við fáum gott veður, en spurningin er þá bara - hversu gott það verður," segir Valdemar.

Ævintýrið hófst 1993

Upphaf Humarhátíðar á Hornafirði má rekja til frumkvæðis einstaklinga og fyrirtækja sem vildu að haldin yrði árleg útihátíð á Hornafirði fyrir Hornfirðinga, brottflutta Hornfirðinga og gesti. Þetta varð að veruleika  árið 1993 og það var Sveitarfélagið Hornafjörður sem fór með framkvæmd hátíðarinnar fyrstu árin en síðan tóku félagasamtök við og hafa þau með virkri þátttöku verslana, veitingastaða og fyrirtækja á Hornafirði staðið að Humarhátíð. Undir merkjum humars hefur hátíðin verið haldin enda Höfn verið þekkt fyrir veiðar og vinnslu á humar.

Á aldarafmæli byggðar á Höfn árið 1997 var stærsta Humarhátíð sem haldin hefur verið en þá heimsóttu Hornafjörð um 4 þúsund gestir. Hátíðin hefur fest sig í sessi og er orðin miðpunktur sumars á Hornafirði og eru þeir margir sem ekki sleppa úr einni einustu hátíð.

Búið er að móta veglega dagskrá fyrir hátíðina 2009 og getur fólk kynnt sér það nánar á vefsíðunni humar.is. Hápunktur hátíðarinnar er viðamikil dagskrá á laugardeginum 4. júlí sem lýkur með varðeldi, dansleik í Pakkhúsinu og stórdansleik í Íþróttahúsinu.