G. Oddur Víðisson, forstjóri Þyrpingar sem hefur með höndum framkvæmdir við 101 Skuggahverfi, segir að verið sé að skoða að breyta nýjasta og stærsta íbúðaturninum við Skúlagötuna í hótel.

„Við erum búnir að gera hagkvæmnisathugun á þessu og skipulagið á hæðunum er þannig að tiltölulega létt mál er að breyta húsinu. Þarna gæti orðið 150 til 160 herbergja fjögurra stjörnu hótel. Við höfum rætt við hótelaðila hér í Reykjavík sem eru að vinna þetta með okkur. Staðsetningin er auðvitað glimrandi góð. Við erum búnir að sækja um í skipulagsráði til að kanna hvernig andinn er í þeim ranni varðandi slíka breytingu og erum að vonast eftir svörum á næstu vikum.“

Oddur segir að áfram sé unnið að húsunum á bak við turninn. Í sumar hafi klárast þar 15 íbúða hús og afhentar fjórar íbúðir. Í byrjun næsta árs verði farið í að klára hús þar við hliðina.