Heildsalan Fastus ehf. hefur keypt hótel- og veitingadeild heildverslunarinnar Amaro, eins elsta og þekktasta verslunar- og heildsölufyrirtækis á Akureyri, sem sérhæft hefur sig í innflutningi og sölu á borðbúnaði fyrir hótel, veitingahús, mötuneyti og aðra stærri notendur.

Í tilkynningu vegna kaupanna segir: “Nafn Amaro er þekktur  gæðastimpill frá gamalli tíð, tengt glæsilegri verslun í Hafnarstrætinu á Akureyri og fallegum borðbúnaði sem má sjá í verslunum og veitingahúsum um land allt,” sagði Arnar Bjarnason, markaðsstjóri Fastus.

Með kaupunum tekur Fastus við umboði fyrir glös, postulín, hnífapör og annan borðbúnað undir vörumerkjunum Arcoroc og Mikasa. Arc international sem framleiðir Arcoroc og Mikasa vörurnar er stærsti glasaframleiðandi í heimi, með yfir 50% markaðshlutdeild á heimsvísu og yfir 70% í Evrópu. Með í kaupunum fylgir tímabundinn réttur til að nota vörumerki Amaro. Markmiðið með kaupunum er að auka fjölbreytt vöruúrval sem Fastus ehf. býður veitingahúsum, hótelum, mötuneytum og öðrum stórnotendum.

“Það er bæði heiður og áskorun fyrir Fastus að taka við þessum umboðum frá Amaro sem hefur sinnt þeim afar vel um langa hríð. Við erum mjög spennt yfir því að taka við keflinu og erum staðráðin í að viðhalda og efla góða ímynd þessara vörumerkja meðal okkar viðskiptavina,” segir Arnar.